Þjónusta Janusar endurhæfingar

Í Janusi endurhæfingu stendur þátttakendum fjölbreytt þjónusta til boða. Ef þátttakandi telur sig þurfa eftirfarandi þjónustu er fyrsta skref að tala við tengilið sem aðstoðar þátttakanda við að setja saman sína endurhæfingaráætlun.

Atvinnuteymi

 Hægt er að fá stuðning við atvinnuleit s.s gerð ferilskrár og kynningarbréfs, umsóknir og ýmsan annan undirbúning fyrir vinnu og stuðning í vinnu.

Áhugasviðskönnun

Hægt að taka áhugasviðskönnun sem getur komið að góðum notum við náms- og starfsval.  Könnunin getur einnig aðstoðað við að móta og styrkja framtíðarstefnu sem snýr að náms- eða starfsvali. 

 

Námskeið

Dagskránni í Janusi endurhæfingu er skipt upp í sex vikna lotur, alls 8 lotur yfir árið. Athugið þó að sumir hópar skarast á milli lota. Þátttakendur fá stundaskrá fyrir hverja lotu í einu. Á stundaskránni eru öll námskeið, hópmeðferðir og annað sem er í boði hverju sinni. Í samráði við tengilið skrá þátttakendur sig í námskeið og útbúa þannig sína eigin stundatöflu út frá sínum heilsuvanda, markmiðum og stefnu. Þátttakendur skrá sig sjálfir inn á námskeið í mótttökunni á 3. hæð eða á 2. hæð. Einnig þarf að skrá sig út úr mætingarkerfinu eftir hvern dagskrárlið. Smelltu hér til að skoða þau námskeið sem eru í boði.

Félagsráðgjöf

Félagsráðgjafar Janusar endurhæfingar veita upplýsingar, ráðgjöf og stuðning vegna félagslegra vandamála. Þörf fyrir félagsráðgjöf getur verið vegna fjármála, félagslegra réttinda, húsnæðismála, fjölskyldumála o.fl

Fjármálafélagsráðgjöf

Markmið fjármálafélagsráðgjafa er að valdefla þátttakendur til að taka stjórn á fjármálunum sínum og bæta fjárhagslega heilsu sína. Fjármálafélagsráðgjafi hvetur þátttakendur til að skoða sína fjármálahegðun ásamt því hvaða tilfinningar, hugsanir, viðhorf, gildi og reynsla hefur áhrif á þeirra samband við sig sjálfa og samband þeirra við peninga. Hann aðstoðar þátttakendur að setja sér fjármálamarkmið og gera áætlun til að ná þeim.  

Fjölskyldu- og pararáðgjöf

Hægt er að fá viðtöl hjá fjölskyldufræðing Janusar endurhæfingar. Fjölskyldumeðferð getur hjálpað þegar þarf að vinna með: barnauppeldi, ágreining og vanda af ýmsu tagi í fjölskyldu og breytt fjölskyldumynstur í kjölfar skilnaðar ofl. Hægt er að vinna með einstakling innan fjölskyldu, pörum, börnum eða fjölskyldunni í heild sinni eða að hluta.

Iðjuþjálfun

Iðjuþjálfun í Janus enduhæfingu miðar að því að auka þátttöku þátttakenda í samfélaginu, á vinnumarkaði eða í námi.

Hugmyndafræði iðjuþjálfunar byggir á samspili þátttakandans sjálfs, þess umhverfis sem hann býr í, við þátttöku í iðju, heilsu hans og velferð. Haft er að leiðarljósi hvernig hægt er í samvinnu við þátttakanda að efla styrkleika hans við iðju, virkni og  þátttöku .

Í Janus endurhæfingu starfa iðjuþjálfar í þverfaglegu teymi og bjóða upp á fjölbreytt námskeið sem miða að fræðslu og ráðgjöf varðandi bætta lífshætti. Einnig er boðið upp á einstaklingsmiðaða þjónustu eins og að finna út í samvinnu með þátttakanda hverjir styrkleikar, áhugahvöt og færni  hans við framkvæmd er. Lagt er fyrir í samvinnu með þátttkanda mat á hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á færni til iðju, heilsu hans og lífsgæði eins og t.d. skynjun, hreyfifærni, framkvæmdafærni  eða samskiptafærni með það að markmiðið að efla lífsgæði og heilsu. Þátttakendur fá stuðning við að setja sér markmið, breyta eða efla þá þætti sem skipta hann máli til að öðlast innihaldsríkara líf.

Líkamsrækt í World Class

Þátttakendur geta fengið líkamsræktarkort sem Janus endurhæfing greiðir fyrir og gildir það í allar stöðvar World Class og sundlaugar tengdar World Class. Starfsfólk Janusar endurhæfingar áskilur sér rétt til að fá upplýsingar um ástundun þátttakenda í líkamsræktinni og viðmiðið er að þeir mæti í líkamsræktina að minnsta kosti tvisvar í viku. Kortið gildir í 2 mánuði og ef endurnýja á líkamsræktarkortið er tekið mið af mætingum.

Læknar

Hjá Janusi endurhæfingu starfar Ómar Hjaltason geðlæknir, læknisfræðilegur ráðgjafi Janusar endurhæfingar. Hægt að fá viðtöl hjá honum eftir samkomulagi. Að öllu jöfnu er ætlast til þess að þátttakendur séu áfram hjá sínum lækni sem sinnir þeirra meðferð.

Markþjálfun

Markþjálfun er samtalstækni sem miðar að því að hjálpa markþega að öðlast skýrari framtíðarsýn, finna áhugaverða stefnu, leiðina og lausninar sjálfur. Viðfangsefni markþjálfunar geta m.a. verið persónulegur vöxtur, aukin lífsgæði og/eða betri frammistaða og árangur. Árangurinn er það sem markþegi ákveður að hann sé. Markþjálfi er ekki ráðgefandi heldur styður hann við markþega í ferli vitundarsköpunar og beinir markþega að kjarna málsins með beinum tjáskiptum og kraftmiklum spurningum og skapar rými fyrir viðhorfsbreytingar. Markþjálfun getur verið styðjandi og um leið áskorandi.

Næringarfræðingur

Hægt er að fá viðtal hjá næringarfræðingi á vegum Janusar endurhæfingar og fá hjá honum leiðbeiningar og stuðning varðandi mataræði og næringu.

 

Sálfræðiviðtöl

Sálfræðiþjónusta er veitt í samræmi við mat þverfaglegs teymis Janusar endurhæfingar ef viðkomandi telur sig þarfnast hennar og er reiðubúinn í meðferð.

Sjúkraþjálfun

Hægt er að fá sjúkraþjálfun ef þörf er á. Þegar meðferð er hafin er mjög mikilvægt að tilkynna tímanlega öll forföll til meðhöndlandi sjúkraþjálfara. Þátttakandi ber sjálfur ábyrgð á því að fá nýjan tíma.

Tengiliður

Þátttakendur fá sinn tengilið í endurhæfingunni en hlutverk hans er m.a. að styðja þátttakendur í endurhæfingunni og halda utan um hana með þátttakendum. Þátttakandi hittir tengilið sinn reglulega í viðtölum og getur tengiliður boðað þátttakanda í viðtal og eins getur þátttakandi beðið tengilið um viðtal. Hver þátttakandi skipuleggur endurhæfinguna í samráði við sinn tengilið og því er góð samvinna við tengilið afar mikilvæg.

Þverfaglegt teymi

Þverfaglegt teymi kemur að endurhæfingunni allra þátttakenda í Janus en í teyminu eru iðjuþjálfi, sjúkraþjálfari, sálfræðingur og geðlæknir. Aðrir sérfræðingar t.d úr atvinnuteymi, félagsráðgjafi eða fjölskyldufræðingur eru kallaðir til eftir þörfum. Teymið fundar vikulega og nýta þátttakendur þjónustu teymisins í gegnum tengilið.

Stuðningur við nám

Boðið er upp á námskeið í námstækni og skólahóp sem er stuðningshópur fyrir fólk í námi. Þátttakendum stendur einnig til boða að mæta á sérstakar náms- og verkefnastofur þar sem þeir geta sinnt námi á eigin vegum. 

Scroll to Top