Hvað ert þú að spá?
Algengar spurningar
Hvernig get ég komist í Janus endurhæfingu?
Samkvæmt þríhliða samingi undirrituðum í september 2023 við
Sjúkratryggingar Íslands og Virk Starfsendurhæfingarsjóð geta eingöngu
Geðheilsuteymi Heilsugæslunnar og Landspítalinn vísað í endurhæfingu hjá Janus
endurhæfingu.
Ef frekari upplýsingar vantar þá er velkomið að hafa samband við Hrefnu Þórðardóttur fagstjóra eða Sigrúnu Ólafsdóttur fagstjóra í síma 514 9175.
Hvað getur maður verið lengi í Janusi endurhæfingu?
Janus er einstaklingsmiðuð endurhæfing og tími í endurhæfingu fer eftir stöðu hvers og eins ásamt framgangi í endurhæfingu.
Er hægt að fá kynningu á starfseminni?
Heldur betur! Kynningar á starfsemi Janusar endurhæfingar eru haldnar eftir þörfum í húsakynnum okkar að Skúlagötu 19, Reykjavík. Þær eru ætlaðar þeim sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi Janusar endurhæfingar með hugsanlega starfsendurhæfingu í huga.
Kynningarnar eru einnig fyrir aðstandendur, bæði aðstandendur þeirra sem eru að skoða Janus endurhæfingu með það í huga að hefja þar endurhæfingu, og einnig ef aðstandendur þeirra sem eru nú þegar hjá Janus endurhæfingu hafa áhuga á að kynna sér endurhæfinguna þar betur.
Þeir sem hafa áhuga á að mæta eru beðnir að senda tölvupóst á netfangið sigrun@janus.is eða hafa samband í síma 514-9177 eða 514-9175 og láta skrá sig.
Heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk Félagsþjónustunnar og aðrir sem koma að heilbrigðis- og endurhæfingarmálum eru einnig velkomnir á þessar kynningar en einnig er boðið upp á sérstakar kynningar fyrir þá hópa.
Getur Janus endurhæfing aðstoðað mig við að komast í vinnu?
Þátttakendum býðst fræðsla og aðstoð við gerð ferilskrár og kynningarbréfs og allan undirbúning sem tengist því að fara út á vinnumarkaðinn svo sem atvinnuleit. Fjölbreytt námskeið þessu tengt eru í boði. Einnig er starfandi vikulegur vinnuhópur fyrir þá sem eru að byrja/eru í atvinnuleit þar sem þátttakendur fá stuðning við allan undirbúning og framkvæmd varðandi það að tengjast vinnumarkaðnum, hvort sem um er að ræða vinnuprufur eða fastráðningu. Þessa vinnu leiðir atvinnuráðgjafi Janusar endurhæfingar. Atvinnuráðgjafi aðstoðar þátttakendur sem þess óska við að finna vinnu og að tengjast vinnustaðnum. Einnig sér atvinnuráðgjafinn um eftirfylgd inn í starf í samvinnu við þátttakandann og atvinnurekanda sé þess óskað.
Hvað gerir tengiliður?
Tengiliður er sá aðili sem meðal annars skipuleggur og heldur utan um endurhæfingu þátttakandans með honum, gerir með honum endurhæfingaráætlun og styður hann við að ná skammtíma- og langtímamarkmiðum sínum. Tengiliður veitir þátttakanda regluleg viðtöl og greiðir götu hans eins og frekast er unnt gegnum endurhæfingaferlið.
Hvað er starfsendurhæfing?
Starfsendurhæfing; er skilgreind þannig í Janus endurhæfingu að markmið endurhæfingarinnar er starf í víðri merkingu. Hér getur verið um margskonar starf að ræða s.s. sjálfboðaliðsstarf, félagsstarf, umönnun heimilis, vernduð vinna eða atvinna á almennum vinnumarkaði.
Læknisfræðileg starfsendurhæfing; sama skilgreining og á starfsendurhæfingu auk þess sem læknir vinnur á staðnum, er hluti af þverfaglegu teymi og þátttakandi í daglegu starfi („interdisciplinary“ nálgun). Beitt er læknisfræðilegum, félagslegum, sálfræðilegum og tæknilegum úrlausnum allt eftir þörfum hverju sinni til að minnka þá skerðingu sem orsakast hefur af völdum sjúkdóms, áfalls eða slyss. Markmiðið er að einstaklingurinn nái sem mestri færni þannig að þátttaka í samfélaginu takist sem best.
Atvinnuendurhæfing; er innan Janusar endurhæfingar skilgreint sem mun þrengra hugtak en starfsendurhæfing. Markmið endurhæfingarinnar er launað starf á almennum vinnumarkaði.
Hverjar eru reglur og viðhorf starfseminnar um vímuefnanotkunar og ofneyslu áfengis?
Miðað er við 3 mánuði án notkunar fíkniefna, ólöglegra efna /ofneyslu áfengis áður en endurhæfing hefst.
Notkun fíkniefna, annarra ólöglegra efna /ofneyslu áfengis hindrar þátttakandann í að ná árangri í endurhæfingunni og er ekki leyfð á endurhæfingatímabilinu.
Styrktarsjóður þátttakenda, hvað er það?
Sjóðurinn var stofnaður í apríl 2013 til að styrkja þátttakendur, sem eru í tímabundinni fjárhagslegri neyð eftir að fullreynt hefur verið að þeir fái ekki frekari fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi eða hinu opinbera.
Stofnfé sjóðsins er framlag stjórnar Janusar endurhæfingar ehf. ásamt tekjum af sölu Iðjubrautar í nóvember 2012.
Tekjur
Tekjur styrktarsjóðsins koma í dag mestmegnis af ágóða sem myndast við sölu á vörum sem þátttakendur búa til í endurhæfingunni. Um er að ræða bæði nytja- og listmuni. Uppbyggingarstarf sjóðsins byggir einnig á gjöfum og áheitum einstaklinga og fyrirtækja. Sú velvild skiptir afar miklu máli til að skapa þá umgjörð sem sjóðurinn starfar við í dag.
Bankareikningur Styrktarsjóðs Janusar endurhæfingar er hjá Íslandsbanka er númer 526-26-4907 kennitala 490713-0340. Þeir sem vilja styrkja sjóðinn er velkomið að leggja inn frjáls framlög á reikninginn.