DAM - Díalektísk atferlismeðferð

Fagfólk innan Janusar hefur frá árinu 2019 menntað sig í gagnreyndu meðferðarúrræði sem kallast Díalektísk atferlismeðferð (DAM). Meðferðin var þróuð af Marsha Linehan og upphaflega hugsuð sem meðferð fyrir einstaklinga með jaðarpersónuleikaröskun, sjálfskaða- og sjálfsvígstilburði. Síðar hafa rannsóknir leitt í ljós að meðferðin er einnig gagnleg við öðrum persónuleikaröskunum, átröskunum, langarvarandi þunglyndi, kvíða, alvarlegum tilfinningavanda og samskiptavanda. 

Í DAM eru kenndir fjórir grunnfærniþættir: núvitund, tilfinningastjórn, samskiptafærni og streituþol. Markmið meðferðarinnar er að aðstoða einstaklinginn við að auka meðvitund um hugsanir, tilfinningar og líkamleg viðbrögð, bæta samskiptafærni, draga úr tilfinningaviðbrögðum og auka færni í tilfinningastjórn, þola við í erfiðum aðstæðum án þess að gera þær verri og læra að gangast við raunveruleikanum eins og hann er í raun og veru. Meðferðin byggist á þeirri hugmynd að fólk sé alltaf að gera sitt besta en með því að læra hjálplegar aðferðir til að takast á við tilfinningar sínar- þá getur það gert enn betur.
Leit