Fréttasafnið
Ánægjulegt er að greina frá því að Janus endurhæfing hefur síðastliðið ár verið í nánu alþjóðlegu samstarfi við háskólann í Stirling og starfsendurhæfingarsjóðinn í Linköping (Samordningsförbundet Centrala Östergötland). Samstarfið felst í því að finna og þróa lausnir til að gera endurhæfingu skilvirkari og árangursríkari með aðstoð gervigreindar án þess að glata gæðum.
Þetta alþjóðlega samstarf nefnist ADAPT (Ai-guided Dynamic optimisAtion of Personalised Treatments) þar sem einn liður í því samstarfi er að innleiða gervigreind í starfsendurhæfingu til þess að kortleggja vandamál einstaklinga í endurhæfingu og koma auga á hvaða úrræði og þjónusta gæti hentað viðkomandi best, með hagsmuni hans í fyrirrúmi.
Vegna þeirrar athygli sem verkefnið hefur fengið í Svíþjóð var ákveðið að byrja á að halda vinnustofuna þar fyrir fagfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu núna í desember en síðan í framhaldinu á Íslandi, í upphafi nýs árs.
Nánari upplýsingar um þetta alþjóðlega samstarfsverkefni er hægt að nálgast með því að hafa samband við Kristínu Siggeirsdóttur og Sæmund Óskar Haraldsson.