Fréttasafnið
Heilsubrestur og færniskerðing hjá ungu fólki
Ánægjulegt er að greina frá því að Janus endurhæfing ásamt Önnu Maríu Jónsdóttur geðlækni, Arnóri Víkingssyni gigtlækni, Brynjólfi Y. Jónssyni bæklunarlækni, Ólafi Ó. Guðmundssyni barnageðlækni og Sæmundi Ó. Haraldssyni tölvunarfræðingi og iðnaðarverkfræðingi stóðu fyrir málþinginu Heilsubrestur og færniskerðing hjá ungu fólki á læknadögum 22. janúar síðastliðinn í Hörpu.
Á málþinginu var fjallað um mikilvægi þess að ungmenni með þung geðræn vandamál og verulega skerta færni fái heildræna endurhæfingu sem samanstendur af hæfingu sem forvara starfsendurhæfingar og eftirfylgd í framhaldinu, allt veitt á sama stað. Þessu til stuðnings var birt í fyrsta sinn niðurstöður úr eftirfylgnisrannsókn Janusar endurhæfingar sem spannar yfir 16 ára tímabil og sýnir framúrskarandi langtímaárangur. Einnig voru kynnt gögn sem sýna á óyggjandi hátt mikilvægi þess að taka alvarlega líkamlegar kvartanir hjá þessum hópi sem og áhrif áfalla í æsku. Fjallað var einnig um mikilvægi þess að meta og aðlaga starfsendurhæfinguna í takt við þau ungmenni sem eru í starfsendurhæfingunni hverju sinni og bera kennsla á þá þætti sem geta haft áhrif á árangur hjá hverjum og einum og nauðsyn þess að bregðast við.
Mats og þjónustuþarfir ungmenna eru á margan hátt ólíkar þeim sem eldri einstaklingar hafa og er mikilvægt að viðurkenna það. Kerfið hefur brugðist þessum hópi þar sem hvergi er veitt samfelld heildræn þjónusta sem veitir grunnþjónustu, hæfingu sem forvara starfsendurhæfingar og síðan starfsendurhæfingu og eftirfylgd. Ungmenni sem þarfnast slíkra þjónustu geta lent í dag milli skips og bryggju. Það er ekki ásættanlegt.
Þróunin og nýsköpun innan starfsemi Janusar var einnig kynnt. Nýting gervigreindar í endurhæfingunni, sem hlutlaus teymismeðlimur eða Völva sem sérfræðingar geta stuðst við og notað sem verkfæri til að bera kennsl á hugsanlega áhrifaþætti. Þessi nýsköpun lofar góðu.
Salurinn var sammála um að nauðsynlegt er að veita þessum hópi ungs fólks rétta endurhæfingu, aðlagaða að þeirra þörfum og þann tíma sem þeir þurfa til að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Ekki sé ásættanlegt að úrskurða hóp ungmenna með stimpilinn „endurhæfing fullreynd“ og skella þeim á örorku. Hér er um æsku Íslands að ræða, þau sem erfa skulu landið.
Í framhaldi af málþinginu hafði Morgunblaðið samband og tók viðtal við Kristínu Siggeirsdóttur sem birtist í blaðinu 27. jan. – lesa má allt viðtalið hér (birt með leyfi Morgunblaðsins)