Fréttasafnið

Heimsókn í Ólaskóg í Kjós

Heimsókn í Ólaskóg í Kjós

03.10.2024

Hópur þátttakenda og starfsmanna Janusar endurhæfingar heimsóttu Ólaskóg í Kjós í síðustu viku. Þetta var önnur ferð Janusar endurhæfingar á jafn mörgum mánuðum. Þessi ferð markar upphaf undirbúnings þátttakenda og starfsfólks fyrir Jólamarkað Janusar endurhæfingar sem haldinn verður í byrjun desember. Þar verða m.a. til sölu vörur sem unnar eru úr skógarafurðum.

Verkefnalisti hópsins var langur; tré voru felld og önnur snyrt, vinnusvæði voru hreinsuð og fengu þátttakendur og starfsmenn tækifæri til að kljúfa við. Eldurinn logaði allan daginn í bálpönnunni og tækifærið var óspart nýtt til að bragða á ketilkaffi, skógarbrauði, kakói og sykurpúðum.

Markmið Janusar endurhæfingar hefur ávallt verið að stuðla að bættri líkamlegri og andlegri heilsu þátttakenda sem og starfsfólks. Ferðir eins og þessi er mikilvægur hluti þeirrar viðleitni. Með því að verja tíma í skóginum fáum við fjölbreytta hreyfingu, upplifum kyrrðina og öndum að okkur fersku lofti. Við eflum færni okkar og tengjumst samferðafólki okkar á nýjan og nánari hátt. Streitukerfið slakar á og ónæmiskerfið eflist.

Stefnt er að því að þessar skógarferðir verði áfram hluti af reglubundinni dagskrá Janusar endurhæfingar enda hafa þær þegar sannað gildi sitt.

Engin ummæli enn
Leit