Endurhæfingarbrautirnar

Einstaklingar þurfa mismunandi stuðning og nálgun til þess að ná betri heilsu og vinnufærni. Þess vegna býður Janus endurhæfing upp á 4 mismunandi endurhæfingabrautir: Iðjubraut, Heilsubraut, Skólabraut og Vinnubraut. Kröfur á hverri braut eru misjafnar og getur þátttakandinn fært sig á milli þeirra eftir því sem hann nær betur tökum á vanda sínum.

Hornsteinn

Á öllum endurhæfingabrautum starfa þverfagleg teymi. Hver þátttakandi er í samvinnu við tengilið sem heldur utan um endurhæfinguna með honum. Tengiliðir vinna í þverfaglegum teymum. Í teymunum eru félagsráðgjafi, iðjuþjálfi, læknir, sálfræðingur og sjúkraþjálfari. Aðrir sérfræðingar eru kallaðir til eftir þörfum s.s. næringaráðgjafar, námsráðgjafar og kennarar.

Í boði utan dagskrár á hverri braut         

Utan dagskrár á hverri braut býðst þátttakendum ýmislegt s.s. viðtöl/meðferðir þverfaglegs teymis, hópmeðferðir sálfræðinga vegna kvíða og félagsfælni, fjármálanámskeið, áhugasviðskönnun, fjölskylduráðgjöf, sjúkraþjálfun,  líkamsrækt undir stjórn sjúkraþjálfara. 

 

            

 

 

Mat á stöðu einstaklings

Boðið er upp á 1-3 mánaðar þverfaglegt mat. Sérfræðingar meta raunhæfni einstaklingsins til þess að hefja starfsendurhæfingu m.a. út frá; mætingum, stundvísi, ábyrgð, samvinnu, áhugahvöt, getu og vilja til að taka leiðbeiningum, samskiptahæfni, eigin umhirðu, rútínu, markmiðssetningu, skipulagningu, frumkvæði svo eitthvað sé nefnt. Hin ýmsu mælitæki eru nýtt allt eftir þörfum hverju sinni.

Matið er fyrir einstaklinga:

  • þar sem geta og áhugahvöt til starfsendurhæfingar er óljós.
  • sem hafa sjúkdómsgreiningu/-ar þar sem óvíst er um getu til starfsendurhæfingar.
  • sem hafa óljós markmið.
  • sem erfitt er að meta og nauðsynlegt er að hafa góðan tíma til þess.

 

Iðjubraut

Iðjubraut er annarsvegar fyrir einstaklinga sem eru „langt“ frá því að geta horft til vinnumarkaðar eða náms. Þeir hafa sumir verið mörg ár frá vinnu/námi, hafa oft slitrótta náms- og atvinnusögu, þurfa yfirleitt að vinna með daglega rútínu og viðhorf sín og ábyrgð, hafa oft upplifað samskiptaerfiðleika á vinnumarkaði og þurfa jafnvel að vinna með eigin umsjá s.s. hreinlæti.

Hinsvegar er Iðjubraut fyrir einstaklinga sem eru vinnumiðaðir en þurfa mikinn stuðning og/eða þurfa að styrkja ákveðna eða afmarkaða þætti áður en þeir geta prófað sig áfram í starfsþjálfunarplássi á vinnumarkaðnum í gegnum Vinnurbraut JE. Mikil samvinna er milli Vinnu- og Iðjubrautar varðandi þjálfun þessara einstaklinga.

Dagskrá:              Fjóra daga vikunnar. Þar fyrir utan eru þátttakendur í annarri þjónustu þverfaglegs teymis og njóta annarrar sérfræðiþjónustu.

Tekið inn:           Allt árið

Tímalengd:        Einstaklingsbundin

Á Iðjubraut fer fram vinnuþjálfun þar sem notuð eru hin ýmsu verkefni. Þátttakandinn vinnur jafnframt að almennri heilsu- og sjálfseflingu sinni. Boðið er upp á ýmis konar fræðslu því tengdu og viðtöl/meðferð mismunandi fagaðila eftir þörfum. Þátttakandinn vinnur með grunnþætti sem þurfa að vera í lagi til að vera virkur í daglegu lífi og störfum s.s.: mætingar, daglega rútínu, eigin umhirðu, jafnvægi í daglegu lífi, samskipta- og félagslega færni, áhugahvöt, trú á eigin getu, viðhorf til vinnu, að taka ábyrgð í lífi og starfi, markmiðssetningu. Einnig jóga, líkamsvitund og slökun.

Skólabraut

Skólabraut er fyrir einstaklinga sem hafa brotna skólagöngu, glíma við heilsubrest og þurfa stuðning til að hefja aftur/stunda nám á framhaldsskólastigi. Oft er saga um námsörðugleika og/eða aðra erfiðleika tengda skólagöngu s.s. lesblindu, athyglisbrest, kvíða, þunglyndi, félagsfælni, verkjasögu, einelti. Skólabraut starfar annars vegar með lokaðan hóp og hinsvegar með opinn hóp. Þátttakendur þurfa oft á opna hópnum að halda eftir lokaða hópinn  og/eða á meðan þeir bíða eftir plássi í lokaða hópnum.

Lokaður hópur staðsettur í Tækniskólanum.     

Þátttakendur þjálfa sig í að vera í erilsömu umhverfi framhaldsskólans, taka þátt í umræðum og hópvinnu og tileinka sér almenna fræðslu. Þeir þurfa að hafa vilja og getu til að þjálfa þá þætti sem verða að vera í lagi til að geta stundað nám á framhaldsskólastigi.

Dagskrá:              Fimm daga vikunnar. Þar fyrir utan eru þátttakendur í annarri þjónustu þverfaglegs teymis og njóta annarrar sérfræðiþjónustu eftir þörfum hverju sinni.

Tekið inn:           Tvisvar á ári,  vor- og haustönn.

Tímalengd:        Ein önn

Unnið er með  almenna heilsu- og sjálfseflingu og boðið upp á ýmsa fræðslu því tengdu og viðtöl/meðferð mismunandi fagaðila eftir þörfum.Sérstök áhersla er lögð á aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar. Kennd er námstækni og þátttakandinn fær tækifæri á að þjálfa sig í að gera verkefni og flytja þau fyrir framan hóp. Kennarar Tækniskólans sjá um tölvukennslu og kennslu í félagsfræði, hönnun, smíðum og ensku. Þátttakandinn þjálfar og vinnur m.a. með mætingar, daglega rútínu, jafnvægi í daglegu lífi, tímastjórnun, markmiðssetningu, samskipta- og félagslega færni, áhugahvöt, ábyrgð, trúna á eigin getu, vinnuvistfræði, líkamsvitund, slökun, viðhorf til náms og vinnu. Þátttakendur geta fengið 7 valeiningar á framhaldsskólastigi fyrir önnina að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Opinn hópur     

Þátttakendur eru í námi á framhaldsskólastigi,  glíma við heilsubrest og þurfa fasta ramma og stuðning þverfagles teymis sérfræðinga til að geta stundað námið.  Þátttakandinn mætir í skipulagða dagskrá í umsjón þverfaglegs teymis JE.

Dagskrá               Samkvæmt stundaskrá. Þar fyrir utan eru þátttakendur í annarri þjónustu þverfaglegs teymis og njóta annarrar sérfræðiþjónustu.

Tekið inn:           Allt árið.

Tímalengd:        Einstaklingsbundið

Unnið er með almenna heilsu- og sjálfseflingu og boðið upp á ýmis konar fræðslu því tengdu og viðtöl/meðferð mismunandi fagaðila eftir þörfum. Dagskráin fer eftir þörfum hópsins hverju sinni og hvað hann þarf að vinna með s.s. jafnvægi í daglegu lífi, skipulag og tímastjórnun,  sjálfstyrkingu, samskiptafærni, markmiðssetningu, slökun og jóga.

Heilsubraut

Heilsubraut starfar annars vegar með lokaðan hóp og hins vegar með opinn hóp. Þátttakendur þurfa oft á endurhæfingu að halda í opna hópnum eftir lokaða hópinn og/eða á meðan þeir bíða eftir plássi í lokaða hópnum. Heilsubraut er fyrir þá sem stefna í vinnu eða nám. Á Heilsubraut er unnið að því að styrkja  þá þætti sem liggja til grundvallar góðri heilsu.

Lokaður hópur

Mætir þörfum þeirra sem þurfa mikið aðhald og fasta ramma ásamt þjálfun og fræðslu í sinni heilsu- og sjálfseflingu. Þessir einstaklingar hafa síður brotna skólagöngu en þeir sem eru á Skólabraut.

Dagskrá:              Fimm daga vikunnar. Þar fyrir utan eru þátttakendur í annarri þjónustu þverfaglegs teymis og njóta annarrar sérfræðiþjónustu eftir þörfum.

Tekið inn:           Tvisvar á ári, vorönn og haustönn

Tímalengd:        Ein önn

Unnið er með heilsu- og sjálfseflingu þar sem sérstök áhersla er lögð á aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar og fjölbreytta fræðslu. Líkamsrækt undir handleiðslu sjúkraþjálfara er á stundaskrá tvo daga vikunnar. Markmiðssetning, líkamsvitund  og slökun gegna einnig veigamiklu hlutverki á brautinni. Viðtöl og meðferðir.

Opinn hópur

Þátttakendur þessa hóps eru í námi eða vinnu. Glíma við heilsubrest og þurfa fasta ramma og stuðning sérfræðinga til að geta stundað nám og/eða vinnu.  Þátttakandinn mætir í skipulagða dagskrá í umsjón þverfaglegs teymis JE.

Dagskrá               Skv. stundaskrá. Þar fyrir utan eru þátttakendur í annarri þjónustu þverfaglegs teymis og njóta annarrar sérfræðiþjónustu eftir þörfum.

Tekið inn:           Allt árið.

Tímalengd:        Einstaklingsbundið

Unnið er með almenna heilsu- og sjálfseflingu og boðið upp á ýmis konar fræðslu því tengdu og viðtöl/meðferð mismunandi fagaðila eftir þörfum. Dagskráin fer eftir þörfum hópsins hverju sinni og hvað hann þarf að vinna með s.s. jafnvægi í daglegu lífi, skipulag og tímastjórnun,  sjálfstyrkingu, samskiptafærni, markmiðssetningu, slökun og jóga.

Vinnubraut

Vinnubrautin er ætluð þeim sem hafa verið minna en hálft ár frá vinnu eða eru á þeim stað í endurhæfingu sinni að launað starf á vinnumarkaði er rökrétt framhald. Brautin er hugsuð fyrir þá einstaklinga sem hafa forsendur fyrir því að hefja sjálfstæða atvinnuleit að endurhæfingu lokinni.

Áhugi til að stunda vinnu þarf að vera til staðar og æskilegt er að þátttakendur séu meðvitaðir um eigin ábyrgð á framgangi endurhæfingarinnar og komnir vel á veg með að endurheimta jafnvægi daglegs lífs s.s. daglega rútínu, eigin umhirðu, svefn og gagnlegar vinnuvenjur. Brautin býður upp á einstaklingsmiðaða atvinnuendurhæfingu í vinnuumhverfi og er þjónustan sniðin að hverjum þátttakanda fyrir sig. Á brautinni er ákveðin dagskrá sem þátttakendur fylgja þar sem þeir fá tækifæri til að taka þátt í fundum, ýmiskonar fræðslu, núvitund ásamt námskeiði í boð- og samskiptum, einnig fá þeir tíma til að vinna að eigin verkefnum. Þátttakendur fá tækifæri til að efla vinnuhlutverkið með aðstoð þverfaglegs teymis, þeir meta starfsgetu sína og prófa vinnufærni með aðstoð sérfræðinga, bæði innan JE og í starfsþjálfunarplássum úti í atvinnulífinu.

Dagskrá              Fimm daga vikunnar frá 9:00 – 15:00, fer þó eftir úthaldi hvers og eins. Þar fyrir utan eru þátttakendur í annarri þjónustu þverfaglegs teymis og njóta fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu s.s. félagsráðgjöf, sálfræðiþjónustu, sjúkraþjálfun og líkamsrækt.

Tekið inn:           Allt árið.

Tímalengd:        Einstaklingsbundin

                              

Einstaklingsbraut

Brautin er fyrst of fremst eftirfylgd eftir aðrar brautir JE eða undirbúningur undir þær. Einnig er hún fyrir þá einstaklinga sem ekki geta nýtt sér þá endurhæfingu sem er á öðrum brautum JE.

Þátttakendur eru hugsanlega í námi eða eru að reyna fyrir sér á vinnumarkaðnum. Tengiliður þátttakandans aðlagar endurhæfinguna í samráði við þátttakandann að þörfum hans. Þátttakandinn hittir tengilið sinn reglulega auk þess sem honum stendur til boða aðstoð allra annara sérfræðinga í teymi JE, sem og þeirra sérfræðinga utan JE sem þörf er á hverju sinni (s.s. sálfræðinga, sjúkraþjálfara, næringarfræðinga, kennara, sérfræðilækna). Einnig standa honum til boða ýmis námskeið og meðferðir.

Dagskrá:              Einstaklingsbundin

Tekið inn:           Allt árið

Tímalengd:        Einstaklingsbundin

Prenta Netfang