Árangur


Árið 2016 var viðburðarríkt hjá Janusi endurhæfingu, bæði í daglegri starfsemi, nýsköpun og vísindum.

Breyting hefur orðið á hópnum sem sækir þjónustuna. Meirihlutinn var á síðasta ári ungt fólk með þung geðræn vandamál, meðaltalsaldur 28 ár (miðgildi 27 ár)(SF 7.8, aldursdreifing 18-59), konur voru í meirihluta eða 60%. Alls voru 251 þátttakandi í starfsendurhæfingu (103 útskrifuðust) og 99% þeirra með a.m.k. eina geðræna ICD-10 sjúkdómsgreiningu. Virkir þátttakendur í endurhæfingu hverju sinni voru 137 að meðaltali.

• 42% höfðu notað vímuefni áður en þau byrjuðu í Janusi endurhæfingu.
• 35% voru með börn á framfærslu.
• 77% þátttakenda voru einhleypir.
• Að meðaltali höfðu þátttakendur verið 34 mán. frá vinnu

Heildar árangur starfseminnar var mjög góður.
103 útskrifuðust og af þeim fóru 53% aftur í vinnu, nám eða virka atvinnuleit.

arangur 2016 1

 

Nýsköpun og vísindi blómstruðu árið 2016

  • Til að minnka álag á starfsfólki ásamt skorts á utanumhaldskerfi sérsniðnu að þörfum starfsendurhæfingar ákvað Janus endurhæfing að bregðast við og þróa sérhæft forrit fyrir starfsemina.
  • Notendaviðmótið Janus Manager var kynnt til sögunar fljótlega í byrjun ársins en það er þróað í samvinnu við starfsmenn.
  • Þann 21. júlí 2016 veitti dr. Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir og stofnandi Forvarna- og fræðslusjóðsins ,,Þú getur” og stjórn hans, Janusi endurhæfingu Hvatningarverðlaun ársins 2016. Verðlaunin eru veitt ,,fyrir faglega geðendurhæfingu, eflingu geðheilsu og nýsköpun í þjónustu við þá sem átt hafa við alvarleg geðræn veikindi að stríða” eins og greint er frá á heimasíðu sjóðsins og framúrskarandi eflingu geðheilsu og baráttu gegn fordómum, eins og stendur á verðlaunaskjali.
  • Tvö erindi voru haldin á vegum Janusar endurhæfingu á ráðstefnunni: The 4th Nordic Conference in Work & Rehabilitation, Reykjavik Iceland 5.-7. september 2016.
    • Nýsköpunarverkefnið Völvan byggð á gervigreind. Völvan segir til um hugsanlega áhættuþætti hvers og eins þátttakanda sem þarf að huga að ásamt því að taka fram hugsanlega tímalengd endurhæfingarinnar. Völvan er stuðningsverkfæri og hægt að nota í daglegum rekstri.
    • Miklvægi bæklunarlæknis í starfsendurhæfingu. Sannreynt er að bæklunarlæknir finnur oft sjúkdóma sem heilbrigðiskerfinu hefur yfirsést og tefja hugsanlega fyrir endurkomu þátttakenda Janusar endurhæfingar út á vinnumarkaðinn. Réttar sjúkdómsgreiningar geta skipt verulegu máli þegar stefnt er að góðum árangri í starfsendurhæfingu.
  • Í nóvember 2016 var Janus Manager kynnt á tækniráðstefnunni DemoFest í Glasgow, Skotlandi og vakti mikla eftirtekt.
  • Í lok ársins 2016, birtist vísindagrein frá Janusi endurhæfingu í kanadíska vísindatímaritinu Work. Greinin heitir Determinants of outcome of vocational rehabilitation og er hægt að nálgast hana með því að smella hér eða á eftirfarandi slóð/The final publication is available at IOS Press through http://dx.doi.org/10.3233/WOR-162436 

Prenta Netfang