Hvatningarverðlaun ársins 2016

Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir og stofnandi forvarna- og fræðslusjóðsins “Þú getur” og stjórn hans veitti Janusi endurhæfingu hvatningarverðlaun ársins 2016 þann 21. júlí síðastliðinn. Verðlaunin eru veitt “fyrir faglega geðendurhæfingu, eflingu geðheilsu og nýsköpun í þjónustu við þá sem átt hafa við alvarleg geðræn veikindi að stríða” eins og greint er frá á heimasíðu sjóðsins og framúrskarandi eflingu geðheilsu og baráttu gegn fordómum, eins og stendur á verðlaunaskjali.

Verðlaun þessi eru mikill heiður og hvatning til alls starfsfólks og stjórnar Janusar endurhæfingar. Við tökum við þeim með auðmýkt og kæru þakklæti.

Forvarna- og fræðslusjóðurinn “ÞÚ GETUR”  er sjálfseignarstofnun þar sem allt starf er unnið af sjálfboðaliðum. Markmið sjóðsins er að styrkja einstaklinga til náms sem orðið hafa fyrir áföllum og/eða eiga við geðræn veikindi að stríða. Að efla þjónustu við geðsjúka á sviði fræðslu og forvarna. Að draga úr fordómum gegn geðsjúkdómum.

Myndin er tekin við afhendingu verðlaunanna þann 21. júlí síðastliðinn. Frá vinstri; Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir, stofnandi forvarnar og fræðslusjóðsins “ÞÚ GETUR”. Sif Þórsdóttir iðjuþjálfi og verkefnisstjóri hjá Janusi endurhæfingu tók við verðlaununum fyrir hönd starfsfólks og Ómar Hjaltason yfirlæknir og stjórnarmaður hjá Janusi endurhæfingu fyrir hönd stjórnar.

Scroll to Top