Tálgun og hönnun smáhúsa

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur æfa sig í vinnutengdum athöfnum á vinnusvæðum iðjunnar ásamt því að æfa sig í mætingum, stundvísi, auka virkni og að geta leitað eftir aðstoð hjá leiðbeinendum  og þátttakendum iðjunnar. Námskeiðið er í umsjón starfsmanna Janusar endurhæfingar. 

  • Miðvikudaga kl. 13.00 – 15.30 (2. hæð Vestur)

Á þessu námskeiði verður boðið uppá fjölbreytt verkefni. Það verður farið yfir grunn í tálgun og öruggar aðferðir til tálgunar og meðhöndlun viðar kenndar. 

Á námskeiðinu verða kenndar tálgunaraðferðir til að vinna með bæði blautan og þurran við. Þátttakendur fá leiðsögn í að ná tökum á sérstökum hnífsbrögðum með hárbeittum hnífum og tileinka sér rétta umgengni við bitverkfæri t.d. axir. Dæmi um verkefni sem byrjað er á er sleif, smjörhnífur og kökuprjónn. Að því loknu taka við ögn flóknari verkefni svo sem fugl, saltbátur, skál, bolli og brauðbretti. 

Einnig verða hönnuð lítil trjáhús. Efniviðurinn sem er notaður í húsin á þessu námskeiði eru trjágreinar sem við klippum niður og límum saman. Fallegt er t.d. að setja ljósaseríu inní tréhúsin en útfærsla og hönnun er nokkuð frjáls þannig að sköpunargleðin fær að njóta sín.

Atvinnutengd vinnufærni: Þjálfa sig í að vinna verkefni frá upphafi til enda, þjálfa sig í að vera hluti af verkferli t.d. við framleiðslu, auka trúna á sjálfan sig, styrkja sjálfstæð vinnubrögð, auka úthald til vinnu bæði andlega og líkamlega, finna styrkleika sína og vinna með þá og auka getu og úthald til að sinna verkefnum sem höfða ekki til þeirra.

Félagsfærni: Vinna með vinnutengd samskipti t.d. hvað er viðeigandi að ræða um á vinnusvæði, skiptast á upplýsingum á vinnusvæði tengt verkefninu, koma skilaboðum áfram, spjalla við aðra þátttakendur eins og taka þátt í umræðuefni á vinnusvæði og þjálfun í að aðstoða aðra.

Hand- og verkfærni: Auka og styrkja verkfærni, vinna með líkamsbeitingu, samhæfingu hreyfinga, fínhreyfingar og skynáreiti, þjálfa sig í að fara eftir leiðbeiningum, og ýta undir skapandi hæfileika.

Þátttakendur mega eiga þá listmuni sem þeir gera á námskeiðinu. Allir aðrir listmunirnir þátttakenda „ganga til góðs“, þ.e.a.s. verða seldir í netsölu Styrktarsjóðs Janusar endurhæfingar.  Allur ágóðinn af sölunni rennur beint í sjóðinn og nýtist þannig þeim þátttakendum sem eru í fjárhagslegri neyð, sjá nánar á heimasíðu Janusar endurhæfingar.

Námskeiðið er opinn hópur og verður hægt að skrá sig eftir að námskeið hefst. Skráning fer fram í samráði við tengilið og inn á Janus Manager. Leiðbeinendur verða Halldór Bjarki Ipsen og Sigríður Hannesdóttir.

Scroll to Top