Flosum glasamottur og prjónum (fimmtudagur)

Fyrir hverja: Alla þátttakendur Janusar endurhæfingar

Markmið námskeiðsins er að bjóða upp á streitulosandi handavinnu í notalegu umhverfi og einnig að skapa tækifæri til að vinna í samfélagi við aðra og virkja áhugahvöt hvers og eins og sköpunargleði.

  • Mánudaga kl. 13.00 – 15.30 (2. hæð Miðja)
  • Fimmtudaga kl. 9.00 – 11.30 (2. hæð Miðja)

Á námskeiðinu verður boðið upp á að læra prjón og að flosa. Áhersla er lögð á að kenna grunn í prjóni fyrir byrjendur og allir prjóna einfaldar borðtuskur, einnig verða kennd fleiri mynstur ef óskast.

Einnig verða kenndar aðferðir í flosi. Fyrstu 2 vikur á námskeiðinu verður áherslan lögð á flos. Allir taka þátt í því og vinna við að flosa einfaldar glasamottur í samfélagi eða samstarfi við aðra. Svo tekur við hópastarf í að flosa stærri verk eins og nálapúða eða sófapullur úr flosi og þá saumum við það saman með einföldum saumum í saumavél.

Í 3. og 4. viku námskeiðs prjóna allir borðtuskur og byrja á að læra garðaprjón. Svo má þróa áfram tæknina ef óskast í næstu borðtusku og gera t.d. slétt og brugðið eða perluprjón.

Í viku 5. og 6. verður hægt að vinna frjálst eða klára verkefnin.

Á námskeiðinu er áhersla lögð á rólega og notalega stemningu þar sem við sitjum í hóp með öðrum og vinnum í höndunum.

Listmunir sem skapaðir verða á námskeiðinu verða seldir í netsölu Styrktarsjóðs Janusar endurhæfingar. Allur ágóðinn af sölunni rennur beint í sjóðinn og nýtist þannig þeim þátttakendum sem eru í fjárhagslegri neyð, sjá nánar á heimasíðu Janusar endurhæfingar.

Þátttakendur mega velja og eiga einn listmun á önn af öllum þeim listmunum sem þeir framleiða í iðjunni, á meðan að þeir eru í endurhæfingunni og taka þátt í listmunasköpun innan Janusar endurhæfingar. Allir aðrir listmunirnir þátttakenda „ganga til góðs“, þ.e.a.s. verða seldir í netsölu Styrktarsjóðs Janusar endurhæfingar.

Námskeiðið verður opinn hópur og verður hægt að skrá sig eftir að námskeið hefst. Skráning fer fram í samráði við tengilið og inn á Janus Manager. Leiðbeinandi verður Sigríður Hannesdóttir.

Scroll to Top