Endurheimt og uppbygging

Fyrir hverja: Alla þátttakendur Janusar endurhæfingar

9. janúar – 13. febrúar

Að auka tenginguna við líkamann, vinda ofan af spennumynstrum, draga úr verkjum og byggja upp aukið traust til líkamans. Námskeiðið er í umsjón sjúkraþjálfara. 

  • Mánudaga kl. 12.00 – 13.30 (Endurheimt, Lynghálsi 4)

Námskeiðið er sérstaklega hugsað fyrir þátttakendur sem hafa átt erfitt með að stunda hreyfingu vegna síspennuástands og verkja og hafa áhuga á því að tileinka sér aðferðir og æfingar sem miða að því að búa til meira öryggi í líkamanum.

Verkir og sípenna í líkamanum eru dæmi um varnarviðbrögð sem viðhaldast til lengri tíma þegar líkaminn fær ekki næg tækifæri til þess að sinna endurheimt eftir álag. Í slíku ástandi heldur líkaminn stöðugri spennu í kerfinu, líkamsstaðan breytist og við beitum okkur á annan hátt en venjulega. Til þess að við getum stundað reglulega hreyfingu og liðið vel eftir hreyfinguna er nauðsynlegt að rjúfa líkamleg varnarmynstur og kenna taugakerfinu að hreyfingin sé líkamanum örugg.

Á námskeiðinu nýtum við okkur ýmis konar áhrifaríkar aðferðir til þess að koma líkamanum í meira jafnvægi. Við notum nudd og teygjur fyrir svæði í líkamanum sem gjarnan halda eftir spennu, virkjum vöðva sem oft fara í dvala á álagstímabilum, tileinkum okkur öndunaræfingar, kynnumst áhrifum hita og kulda, förum í gegnum mjúkar æfingar sem auka tenginguna við líkamann, prófum tog á útlimi og höfuð og endum alla tíma á liggjandi slökun.

Í tímunum leggjum við áherslu á að þjálfa upp skynjun fyrir því hvar mörk hvers og eins liggja. Tímarnir ættu því að henta flestum og fullur skilningur ríkir á því að öll erum við misjöfn og þurfum að geta aðlagað hlutina að okkur sjálfum.

Þátttakendur á námskeiðinu hafa möguleika á því að prófa bekkjarmeðferð hjá sjúkraþjálfara og að nýta saunur og sogæðatæki á stofunni. Ef áhugi er fyrir því er nauðsynlegt að þátttakendur mæti með beiðni í sjúkraþjálfun.

Námskeiðið er lokaður hópur og verður ekki hægt að skrá sig eftir að námskeið hefst. Skráning fer fram í samráði við tengilið og inn á Janus Manager. Leiðbeinandi verður Agnes Ósk Snorradóttir.

Scroll to Top